Reglur um aðgang að birgðarými og þjónustu
Reglur þessar gilda um aðgang endurseljenda að þjónustu Olíudreifingar ehf., hér eftir vísað til sem ODR. Reglurnar eru settar á grundvelli sáttar sem eigendur ODR hafa gert við Samkeppniseftirlitið og ODR hefur gerst aðili að.
Endurseljendur eldsneytis skulu hafa aðgang að þjónustu ODR, þ.m.t. leigu á birgðarými.
Endurseljandi sem óskar eftir birgðarými hjá ODR skal senda félaginu beiðni fyrir hverja tegund eldsneytis fyrir hverja birgðastöð sem hann hyggst nýta á næsta rekstrarári fyrir 1. október ár hvert. Með rekstrarári er átt við almanaksárið, 1. janúar til 31. desember.
Endurseljandi skal hafa forgang að því rými sem hann leigði árið áður í viðkomandi birgðastöð. Leitast er við að verða við óskum um breytingar á skiptingu niður á tegundir en sé það ekki mögulegt helst tegundaskipting síðasta árs. Endurseljendur kunna að þurfa að sæta skerðingu ef það er málefnalegt og nauðsynlegt til að tryggja forgang nýrra endurseljenda sem óskað hafa eftir aðgangi að birgðarými.
Nýir viðskiptavinir skulu hafa forgang, umfram alla aðra viðskiptavini ODR, að 5% af rými í hverri tegund, nema málefnalegar ástæður standi til annars, og skerðist þá forgangur annarra hlutfallslega sem því nemur. Nýir viðskiptavinir sem geta notið þessa forgangs skulu vera endurseljendur á eldsneyti á íslenskum markaði.
Fari hlutfall nýs aðila í gegnumstreymi á tímabilinu 1.7.-30.6. ár hvert í viðkomandi tegund umfram hlutfall hans í þáverandi forgangsrými eykst réttur hans til forgangsrýmis í úthlutun fyrir næsta ár upp í það hlutfall af heildarrýminu að teknu tilliti til niðurfærslu vegna 5% réttar annarra nýrra aðila sem ekki hafa náð 5% hlutdeild í gegnumstreymi. Nýti aðili sér ekki þennan rétt að fullu fellur hann niður í það skiptið en fari hlutfall nýs aðila í gegnumstreymi á næsta tímabili 1.7. – 30.6 í viðkomandi tegund umfram hlutfall hans í þáverandi forgangsrými eykst réttur hans til forgangsrýmis í úthlutun fyrir næsta ár upp í það hlutfall af heildarrýminu að teknu tilliti til niðurfærslu vegna 5% réttar annarra nýrra aðila sem ekki hafa náð 5% hlutdeild í gegnumstreymi. Nýti aðili sér ekki þennan rétt að fullu fellur hann niður í það skiptið. Nýti aðili sér þennan rétt viðheldur hann rétti sínum ef hlutdeild hans eykst. Réttur aðila helst í 5 ár eftir að hann hóf viðskipti í viðkomandi tegund og miðast þá réttur til forgangsrýmis við þá nýtingu sem hann hefur áunnið sér með notkun.
Leigist ekki nægjanlegt rými í viðkomandi tegund til að skila ásættanlegri nýtingu verður nýting rýmisins endurskoðuð, verðlagning þess eða þeim endurseljendum sem hafa óskað eftir hlutdeild í rýminu gefinn kostur á að bæta við sig rými til að ná ásættanlegri nýtingu.
Endurseljendum skal tilkynnt fyrir lok september hvers árs hversu miklu rými þeir hafa forgang að á næsta rekstrarári.
Forgangsrými er það rými sem viðkomandi viðskiptavini er tryggt í birgðatanki af viðkomandi eldsneytistegund. Viðskiptavinur getur notað meira rými sé það tiltækt gegn gjaldi. Nýti viðskiptavinur ekki allt forgansrými sitt, byggt á tilkynntum flutningum inn á viðkomandi birgðastöð, er það rými tiltækt öðrum viðskiptavinum án þess að greiðslur þess sem leigir forgangsrýmið lækki.
Skal þjónusta ODR veitt á jafnræðisgrundvelli þannig að afgreiðsluhraði, skilmálar og þjónustustig sé hið sama.
Skal öll þjónusta ODR standa hverjum sem er til boða, þar með talið dreifing og birgðahald.
ODR er óheimilt að mismuna viðskiptavinum nema til þess standi sannarlega málefnalegar ástæður.
ODR er óheimilt að miðla upplýsingum sem félagið kann að búa yfir um viðskiptavini sína til hluthafa eða annarra viðskiptavina félagsins. Skal engum upplýsingum um fyrirspurnir tilvonandi viðskiptavina miðlað til þriðju aðila, þ.m.t. hluthafa ODR.
Gjald fyrir notkun birgðarýmis ferð eftir verskrá ODR sem endurspeglar kostnað vegna reksturs viðkomandi birgðarýmis, þ.m.t. afskriftir, auk hæfilegrar ávöxtunar á heildarfjárfestingu sem bundin er í rekstri hvers birgðatanks.
Heimilt er að verðleggja rekstraráhættu með álagsgjaldi fyrir notkun sem viðskiptavinur hefur ekki áður skuldbundið sig fyrir, veita magnafslætti og aðra afslætti og skulu afslættir og álag þá byggja á viðskiptalegum forsendum svo sem auknu hagræði við að afgreiða mikið magn í einu.
ODR skal leggja sig fram um að gæta þess að nægilegt birgðarými sé fyrir hendi til þess að þjónusta alla viðskiptavini félagsins enda séu frekari fjárfestingar hagkvæmar.
Skal ODR bjóða viðskiptavinum að leigja ákveðið magn birgðarýmis til lengri tíma ef eftir því er óskað. Skal þess gætt að með því sé ekki dregið úr möguleikum ODR til að þjónusta þá viðskiptavini sem eru þegar í viðskiptum við félagið.
ODR hefur heimild til að breyta reglum þessum. Auk þess kunna öryggiskröfur, breytingar á lögum, fyrirmæli eða ákvarðanir stjórnvalda að gera það að verkum að breyta þurfi reglunum.
Breytingar skulu tilkynntar endurseljendum með sannanlegum hætti, t.d. með tölvupósti, með 30 daga fyrirvara a.m.k.
Reglur þessar öðlast þegar gildi. Reglur þessar og breytingar á þeim eru birtar á heimasíðu ODR, www.odr.is.
Útgáfudagur 26.07.2024
Ef þú ert með spurningar, sendu þá tölvupóst á odr@odr.is