Jafnréttisáætlun Olíudreifingar

Inngangur

Orðið jafnrétti felur m.a. í sér að allir starfsmenn eigi að sitja við sama borð óháð kyni, kynhneigð,  kynvitund, kynþætti, trú, aldri eða búsetu.  Tilgangurinn með sérstakri áætlun er fyrst og fremst sá að tryggt sé að hæfileikar og færni allra fái notið sín. En til þess að áætlunin þjóni tilgangi sínum þarf að setja fram mælanleg og tímasett markmið eða aðgerðarplan. 

Í Jafnréttisáætlun Olíudreifingar  ehf. er fyrst og fremst verið að vinna með jafnrétti kynjanna í anda laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Rétt er að geta þess að einungis um 9% starfsmanna Olíudreifingar eru konur og þar af  ­tvær konur af erlendum uppruna.   Ef í ljós kemur að það halli á annað hvort kynið þarf að grípa inní og finna leiðir til að rétta hlut þess sem höllum fæti stendur.

Jafnréttisáætlun Olíudreifingar er kynnt öllum starfsmönnum í Starfsmannahandbók sem er árlega uppfærð og öllum aðgengileg m.a. á heimasíðu félagsins.  Jafnframt fá allir nýir starfsmenn sérstaka kynningu á grunn stefnum félagsins þar á meðal jafnréttisstefnunni.

Fyrsta jafnréttisáætlun Olíufreifingar tók gildi á haustmánuðum 2004 og því hefur sérstök áhersla á jafnrétti  verið samofið starfi Olíudreifingar í 15 ár. Jafnréttisáætlunin og sérstök aðgerðaáætlun er uppfærð og yfirfarin með reglulegu millibili. Framkvæmdastjóri ber alltaf endanlega ábyrgð á jafnréttisáætluninni en felur forstöðumönnum eða öðrum starfsmönnum afmörkuð verkefni eða verkþætti.  Jafnréttisáætlun Olíudreifingar er hluti af starfsmannastefnu félagsins. 


1. hluti

Kynjaskipting starfsmanna

Olíudreifing er karllægur vinnustaður. Í gegnum árin hefur mikill meirihluti starfsmanna verðir karlar þó svo að í mörg ár hafi verið lögð sérstök áherlsa á að fjölga konum. Árlega er farið yfir starfsmannalista og reiknuð út skipting starfsmanna eftir kyni – í heild og innan hvers starfssviðs fyrir sig.  Einnig er reiknað út hlutfall starfsmanna af erlendum uppruna.  Þar sem það hallar verulega á konur á nær öllum starfssviðum, nema á skrifstofu, er það haft að  leiðarljósi við mannaráðningar og  reynt að rétta kynjahallann.  Ef jafnhæfir einstaklingar sækja um auglýst starf ber að ráða það kynið sem hallar á.

Þau starfssvið eða hópar sem þarf að skoða eru

  • - Forstöðumenn.
  • - Deildar-, stöðva- og verkefnastjórar.
  • - Iðnaðarmenn.
  • - Bifreiðastjórar
  • - Starfsfólk á skrifstofu.
  • - Aðrir starfsmenn.

2. hluti
Auglýsing starfa

Í starfsauglýsingum frá Olíudreifingu kemur fram að auglýst starf henti jafnt konum sem körlum enda er það í anda jafnréttislaga.   Það er óheimilt að auglýsa starf þar sem fram kemur að atvinnurekandi óski frekar eftir öðru kyninu en hinu.  Á þessu er þó undantekning því ef Olíudreifing vill stuðla að jafnari kynskiptingu meðal starfsmanna í einstökum störfum er bæði æskilegt og heimilt að hvetja annað kynið sérstaklega til að sækja um viðkomandi starf.  Það þarf þá að koma fram í auglýsingunni að markmiðið sé að jafna hlut kynjanna.  


3. hluti
Laun, hlunnindi og framgangur í starfi

Í lögunum er kveðið á um launajafnrétti og að kynin skulu njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Eins ber fyrirtækjum eins og Olíudreifingu skylda til að fá formlega jafnlaunavottun. Sú vinna og rýni sem fer fram innan fyrirtækisins í vottunarferlingu er mjög gagnleg og gefur góða sýn á launagreiðslur og hlunnindi starfsfólks m.a. eftir kyni. Olíudreifing leggur áherslu á jafna möguleika allra starfsmanna á starfsþjálfun, sí- og endurmenntun. Kynin eiga t.d. að búa við sömu möguleika á stöðuhækkunum, stöðubreytingum og vinnuaðstöðu.

Árlega þarf að skoða skiptingu á öllum þeim þáttum sem flokkast geta til hlunninda með það fyrir augum að ekki sé verið að mismuna starfsfólki eftir kyni.  Með hlunnindum er átt við t.d. aðgengi að vinnuaðstöðu eða tækjum til eigin nota, tölvutengingar heim til starfsmanna, bónusgreiðslur, farsímar, fartölvur eða annað sem flokkast getur til hlunninda og tekjuauka. 

4. hluti
Áreitni og ofbeldi

Öllum starfsmönnum Olíudreifingar þarf að vera ljóst að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og  kynferðisleg áreitni er alls ekki liðin.  Hér er t.d. átt við kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Áreitni eða ofbeldi sem beinist sérstaklega að öðru kyninu. Starfsmenn eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega áreitni, en áreitnin getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði.  Kynferðisleg áreitni hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og henni er haldið áfram þrátt fyrir að tekið sé skýrt fram að hegðunin sé í óþökk þolanda.   Stjórnendur verða að tryggja að starfsmenn verði ekki fyrir áreitni eða ofbeldi m.a. með því að senda út skýr skilaboð um að slík hegðun verði ekki liðin og á henni verði tekið.  Stjórnendur bera ábyrgð á því að kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi eða kynbundin áreitni viðgangst ekki innan Olíudreifingar.  Ef upp koma mál sem þessi fer meðferð þeirra í ákveðinn farveg.  Stjórnendur nýta sér aðstoð fagaðila og bjóða bæði þolanda og geranda upp á utanaðkomandi aðstoð. 


5. hluti
Verkaskipting - vinnuhópar og nefndir

Þegar starfsmönnum er skipt í vinnuhópa skal hafa það að leiðarljósi að samsetning hópa endurspegli kynjaskiptingu starfsmanna.  Einnig þarf að hafa þessa skiptingu í huga þegar kosið eða valið er í embætti á vegum Olíudreifingar.  Eins og fram kom í inngangi er kynjaskipting mjög ójöfn í fyrirtækinu.  Sumpart vegna starfseminnar þar sem flest öll störf flokkast til hefðbundinna karlastarfa og hins vegar þess að færri konur hafa enn menntun til að sinna þessum störfum.  Því er langt í land að hægt verði að jafna hlut kynjanna í vinnuhópum eða nefndum sem Olíudreifing á aðild að.

6. hluti
Viðhorfskannanir

Í reglubundnum viðhorfskönnunum þarf að greina allar niðurstöður eftir kyni ef unnt er. En sökum þess hve fáar konur vinna á flestum sviðum fyrirtækisins er ekki alltaf unnt að greina þau svör eftir kyni.  Hér er hægt að nýta sér m.a. starfsmannasamtöl og ýmsar aðrar kannanir sem gerðar eru af Olíudreifingu og tengjast innra mati sem unnið er með í fyrirtækinu. 

Þar er skoðað sérstaklega m.a:

  • - Almenn kjör
  • - Viðhorf til starfsins
  • - Vinnuálag-sveigjanlegur vinnutími
  • - Aðgengi að stjórnendum
  • - Ábyrgð í starfi
  • - Aðgang að aðstoð eða handleiðslu
  • - Aðbúnað-vinnuumhverfið, hæfir það báðum kynjum?
  • - Annað.

7. hluti
Samræming fjölskyldulífs og atvinnu

Allt starf í Olíudreifingu þarf að taka mið af því að samræma sem best fjölskyldulíf og atvinnu starfsmanna.  Á almennum vinnumarkaði er mikið lagt upp úr því að vinnutími starfsmann sé sveigjanlegur og það talið til kosta ef unnt er að vinna hluta starfsins heima. Flest störf innan Olíudreifingar lúta hinsvegar þeim lögmálum að erfitt er að koma þessu við en þó er gott að vera meðvitaður um sveigjanleika í starfi.  Í anda jafnréttislaga eiga stjórnendur að leitast við að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að starfsmenn, jafnt karlar sem konur, geti samræmt sem best starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.  Í anda samræmingar er vert að skoða og skrá sérstaklega fjarvistir starfsmanna frá vinnu vegna fjölskylduábyrgðar og athuga hvort hlutfallslegur munur sé á fjarvistum kynjanna.

8. hluti
Ábyrgð

Framkvæmdastjóri ber endanlega ábyrgð á jafnréttisáætlun Olíudreifingar ehf.  Hinsvegar getur hann falið einstökum starfsmönnum að koma að því að semja hana og fylgja henni eftir.  Líta má á jafnréttisáætlunina sem viljayfirlýsingu Olíudreifingar í jafnréttismálum.  Framkvæmdastjóri þarf að undirrita áætlunina ásamt einum starfsmanni og fylgja henni eftir. Framkvæmdastjóri kynnir áætlunina síðan fyrir stjórn fyrirtækisins. 

 

Uppfærð áætlun í október 2019.

f.h. Olíudreifingar ehf.

 

Hörður Gunnarsson

Framkvæmdastjóri Olíudreifingar ehf.

 

Gestur Guðjónsson

Forstöðumaður umhverfis- og öryggismála Olíudreifingar ehf.



Oliudreifing | Holmaslod 8-10 | 101 Reykjavik 
 tel +354 550-9900 | fax: 550-9999 | odr@odr.is

 
Sími:

550 9900

 
Sendu okkur mail:
odr@odr.is