Guðmundur G Þórarinsson, formaður stjórnar Úrvinnslusjóðs, sem hefur yfirumsjón með meðhöndlun allra spilliefna, endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs á Íslandi, ræsti búnaðinn. Taldi hann að Olíudreifing væri með uppsetningu þessa búnaðar að stíga eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í endurvinnsluiðnaði á Íslandi.
Hingað til hefur olían verið unnin með undantöppun að því marki að hægt sé að brenna henni í kolaofnum í sementsframleiðslu, en með frekari hreinsun óhreininda og þó sérstaklega vatns með skilvindum og loftþurrkurum er hægt að brenna henni í stað verðmætara eldsneytis.
Í prufukeyrslu búnaðarins kom í ljós að úrgangsolían inniheldur einnig talsvert magn léttari efna, sem að megninu til stafa frá þvottastöðvum og öðrum aðilum sem nota olíuhreinsiefni. Mun þetta vera um 50-100 þúsund lítrar á ári sem hingað til hafa gufað upp í andrúmsloftið í formi VOC í vinnslunni. Til samanburðar endurvinnur gufuendurvinnslubúnaðurinn á bensínsvæði olíustöðvarinnar í Örfirisey um 160 þúsund lítra árlega, þannig að þetta eitt og sér hefur verulega jákvæð umhverfisáhrif. Auk þessa minnkar grunnolían sem búnaðurinn framleiðir olíuinnflutning þjóðarbúsins um 3-4.000 tonn á ári, sem er mun dýrari orka en þau kol sem hún sparaði áður..